Hvernig er best að hreinsa brass? 🧽

Brass er mjög fallegur málmur og er mikið notaður í allskyns smíðavinnu. Efnið er sterkt og hefur lágt bræðslumark (um 900°C) og hentar því vel til uppsteypu og smíði. Þess vegna er algengt að sjá ljós, hljóðfæri og listaverk úr brassi. 

Brass eða látún/messing er málmblanda af ca. 66% kopar (Cu) og 34% sinki (Zn). Sinkinu er blandað við koparinn til þess að efla eiginleika hans, s.s. rakaþol, vinnanleika og styrk. Þannig verður blandan gyllt á litinn sem minnir marga á gull.

Brass breytir um lit með aldri

Brass þolir raka og útiveru mjög vel en vatn, súrefni og koldíoxíð veldur tæringu í málminum og myndar þunnt lag á yfirborðinu sem verndar hann gegn frekari tæringu. Þetta verndarlag kallast spanskgræna á góðri íslensku og hefur sæ- eða blágrænan sveip, en það er aðeins mismunandi eftir koparinnihaldi blöndunnar. Spanskgræna myndast á löngum tíma og má t.d. sjá á koparþökum gamalla og veglegra bygginga, s.s. á þaki Dómkirkjunnar og Hótel Borg. Frelsisstyttan er einnig smíðuð úr kopar svo hún hefur upprunalega verið koparbrún en í dag er hún sægræn. Mörgum finnst þessi litur fallegur, hann ber merki um sögu og aldur en aðrir vilja losna við hann og fá aftur glampann af skínandi málmi. 

Why Does Copper Turn Green Over Time? (Patina Chart)

Hvernig hreinsa ég brass?

Við skulum skoða hvaða efni og aðferðir er best að nota til þess að hreinsa brassið, sé það farið að láta á sjá.

1. Hreinsaðu brassið jafn óðum

Spanskgræna tekur ansi langan tíma að safnast upp á brassi en það fer eftir því hversu mikil bleyta eða raki kemst að því. Með því að hreinsa brassið jafnt og þétt með viðeigandi hreinsivörum getur þú haldið brassinu gljáandi og gylltu með lítilli fyrirhöfn.

2. Brass-hreinsar út í búð

Til eru ýmis hreinsiefni sem eru sérhönnuð til þess að hreinsa brass, slíkar vörur getur þú nálgast í næstu byggingavöruverslun og ættu að henta vel í verkið. Passa skal að fylgja leiðbeiningum framleiðanda þegar þau eru notuð, ef spanskgrænan hefur safnast vel upp gæti þurft að láta efnið liggja á brassinu í dágóðan tíma áður en það er hreinsað upp með hreinni tusku. 

3. Heimatilbúin ráð

Það er ekki nauðsynlegt að kaupa hreinsiefni út í búð, þú ert líklega með allt sem þú þarft í eldhússkápnum heima hjá þér! Nokkrar heimatilbúnar blöndur þykja henta vel til þess að hreinsa brass. 

  • Sítrónusafi og matarsóti

Kreistu heila sítrónu í ílát og bættu við tveimur teskeiðum af matarsóta, blandaðu þessu tvennu saman þar til efnin hafa blandast vel saman. Nuddaðu blöndunni við brassflötinn með hreinni tusku. Ef spanskgrænan hefur safnast upp er gott að láta blönduna sitja á brassinu í dágóðan tíma áður en þú skolar af með volgu vatni. Endurtaktu þessi skref þar til brassið er skínandi hreint!

  • Sítróna og salt

Skerðu sítrónu í tvennt, stráðu salti í sárið og notaðu sítrónuna til þess að strjúka yfir brassflötinn. Hreinsaðu svo á eftir með volgu vatni. Endurtaktu þetta þar til brassið er eins og nýtt.

4. Leyfðu brassinu að njóta sín!

Í sumum tilfellum er flottast að láta brassið veðrast og tærast á sinn náttúrulega máta og leyfa spanskgrænunni að segja til um sögu og aldur ljóssins! Það er ákveðinn höfðingsbragur yfir þessum lit sem margir tengja við veglegar byggingar og listaverk. Það er umhugsunarvert hvort gamlir hlutir úr brassi eða kopar sem bera þennan lit eigi að láta óáreitta, standi hluturinn utandyra hefur spanskgrænan einnig það hlutverk að vernda málminn gegn frekari tæringu.